Nýr // Neuf

Litli kúturinn og tölulegar staðreyndir

 

[Þá verða ritaðar tilkynningar:]

Hér með tilkynnist um fæðingu að Spítala heilags Lúkasar í Borg hins konunglega fjalls í Québec. Um er að ræða nýjan Vestur-Íslending.

Við fæðingu korter yfir eitt eftir hádegi á prímtöludeginu 5. júlí (20)11 var stubburinn 56 sentimetrar og 15 merkur.

Þeim mæðginum heilsast eftir atvikum vel og senda hjartans kveðjur til þeirra er þetta kunna að lesa.

Meir var það ekki að sinni.

[Tilkynningum lokið]

*************************************

Pour l’interêt publique:

Le mardi 05 juillet 2011 à 13H15 est né à l’hôpital St-Luc à Montréal un petit Islandais. Il mesurait à la naissance 56 cm et pesait 3,845 kg.

Mère et enfant se portent bien.

[fin de communication]

Vestur-Íslendingur
Birt í Uncategorized | 8 athugasemdir

Cabane à sucre


Gulli, Katla og hlyn-sírópið

Við Katla óverdósuðum á sykri á laugardaginn.

Málvísindanemar fóru í hópferð í „Sykur-kofa“ (Cabane à sucre). Þetta ku víst vera voðalega þjóðlegt eitthvað. Þegar við mættum á staðinn reyndist kofinn vera stærðarinnar veislusalur á landareign hlynsíróps-bænda og heillöng biðröð eftir að komast í gósendirnar.

Hlynsíróp, síróps-bjór og kaffi með sírópi. Katla er ósírópuð á þessari mynd.

Núna er sá tími ársins sem sírópinu er tappað af trjánum, þau beinlínis dæla jukkinu út úr sér. 40 lítrar af hlyn-safa gefa af sér sirka 1 líter af hlyn-sírópi (Hér er vídeó sem sýnir hvernig þetta allt saman gerist. Það er á frönsku en myndmálið segir sitt). Í tilefni af öllu þessu þá gera könödubúar á öllum aldri sér dagamun og drífa sig í sveitaferð. Á boðstólunum er nóg af mat: t.d. svínasteik, súpur, beikon, omelettur, svínaskinkur, svínapurur (eyru Krists), svínapylsur og smá kartöflur. Öllu er þessu svo drekkt í sírópi og drukkið mjólkurglas með. Baunasúpa með hlynsírópi kemur á óvart. Þetta minnir á samblöndu af jólahlaðborði og þorrablóti með hlynsíróps-þema.

Merkilegt nokk innihalda eftirréttirnir ekkert svín en bæta fyrir það með því að bjóða upp á nunnu-prump (kanilsnúða), auk hollari rétta eins og sykur-böku og fleira góðgætis. Að bæta smá sírópi yfir þetta allt auk þess að setja góðan slurk í kaffið setur punktinn yfir i-ið.

Þegar þessu öllu er lokið og líkaminn ekki enn kominn í sjokk skellir maður sér yfir í næsta skúr og fær sér smá síróp í viðbót, að þessu sinni í næstum föstu formi, tire d’érable. Þar er sírópið soðið niður (40 lítrar síróp gefa af sér 1 líter af tire d’érable) og helt út yfir snjó, vafið upp og étið með bestu lyst. Sjá vídeó hér að neðan.

Þegar búið er að neyta hæfilegs magns af dísætu sírópi þá gerir maður eins og litlu krakkarnir og dansar eins og vitleysingur við dynjandi tóna hús-plötusnúðsins. Okkur Kötlu fannst það gaman, ég æfði mig í að Stampa med Leroy.

Í öllum hamaganginum við að neyta þessa svínslega góða síróps-matar þá gleymdist að mestu að munda myndavélina (hóst, hóst, Katla bannaði mér að vera túristi, hóst, hóst), þó eru einhverjar myndir hér. Þið komið bara með næst.

P.s. Það var gott að tannbursta sig þegar við komum heim.

Birt í Menning | 2 athugasemdir

Boðið í kaffi

Í dag kíkjum við inn í ákaflega lekkera íbúð í Plateau-hverfi Montréal.

Má ekki bjóða ykkur í heimsókn?

Við Katla fluttum okkur semsagt um set í byrjun árs, fórum úr hinu indæla Roulotte-lofti í jakkafata-hverfinu yfir í öðlingahverfið Plateau. Plateau er svolítið eins og Þingholtið: maður gat ekki kastað steini þar án þess að hann lenti á listamanni eða nemenda en núna er þar orðið meir og meir af „bransaliðið“ og fégráðugum byggingar-verktökum. Hús látin grotna niður til að hægt sé að rífa þau, „nýtískulegra“ byggt og leigan hækkuð upp úr öllu valdi. Með þessu hverfur sjarminn smátt og smátt. Þetta gerist, c’est la vie. Frönskumælandi listamennirnir leita nú meir yfir í Mile-end (Ránargata et al) en þeir ensku frekar yfir í St. Henri.

En allavegana, hverfið er enn þá heillandi og við fundum semsagt litla týpíska sjarmerandi Montréal-íbúð með týpískum stiga utan á. Verðið er „correct“ svo maður sletti, langt fyrir neðan það sem er orðið standardinn á Plateau og mjög langt frá því sem gerist í 101 – Reykjavík. Svo sakar staðsetning ekki, þremur húsum frá Parc La Fontaine (Laugardal?).

Meðfylgjandi er lítið innlit inn holuna okkar. Vonandi að þið hafið gang og gaman af því.

Birt í Lífið í Montréal | 15 athugasemdir

Fleiri myndir

Bjó til möppu með myndum héðan úr borginni. Hana má nálgast hér. Fattaði jafnframt hvernig ætti að setja upp hlekki hér á bloggið. Það er því kominn almennur hlekkur á myndasíðuna.

Meir var það ekki að sinni.

Birt í Almennt | Færðu inn athugasemd

Snjór à volonté!

Snjór í bakstræti

Það fer varla fram hjá manni að það er vetur hér í Montréal. Þó var meðalhiti í janúar 4 gráðum hærri en á meðalvetri eða -7°C.  Erum þess fyrir utan bara búin að fá tvo „snjóstorma“, hvorn upp á 30-40 cm á minna en sólarhring. Annars snjóar svona almennt 1cm á dag, stundum meir, stundum minna, og hitinn á það til að detta í kringum -20°C. -14°C er ferskt.

Katla hristir hausinn yfir barnslegum áhuga mínum á hvernig borgin tekur á snjónum og langar mig því að deila honum með ykkur til að réttlæta hann gagnvart Kötlu.

Í stuttu máli þá er borgin ofvirk þegar kemur að snjó. Það líður ekki sá dagur að engin beri snjóruðningstækin fyrir augu. Ég las t.d. að borgin áætlar 140 milljónir dollara í að fjarlægja snjó, þar af eyddu þau 17 milljónum til að ryðja eftir fyrsta snjóinn. 17 milljónir CAN = 2 milljarðar íslenskra króna. Katla hnussar yfir talna-fýsninni minni.

Hvernig er ekki hægt að segja Mússí-múss Katla?!?

Ég er líka skotin í litlu gröfunum sem borgin notar til að ryðja gangstéttirnar, stoppa oft og dáist að þeim eins og lítill krakki. Katla togar mig áfram eins og gilt og gott foreldri.

Mér finnst svolítið gaman að fylgjast með því þegar göturnar eru ruddar. Fyrst eru gangstéttir og götur ruddar. Bílaeigendur þurfa sjálfir að grafa sig út úr sköflum. Síðan birtast skilti þar sem tekið er fram að bannað sé að leggja á tilteknum tíma í götunni daginn eftir. Þá er snjórinn fjarlægður. Þeir bílaeigendur sem ekki nenna/geta grafið bílinn sinn út fá hann grafinn út og fjarlægðan af borginni. Geta svo sótt hann til lögreglunnar og borgað flutningskostnaðinn. Meðaltalið er víst í kringum 500 bílar per storm. Katla andvarpar þegar ég tala um þetta.

Ég verð stundum orðlaus þegar ég labba fram á vinnuflokkana þar sem þeir eru að ryðja göturnar, iðulega sirka fjórar stórar gröfur/vegheflar, sex litlir beltaheflar og fullt af vörubílum til að fjarlægja herlegheitin saman í einni kös. Katla veltir fyrir sér hverju hún hafi gifst.

Snjór

Þegar ég tala við borgarbúa og tjái þeim aðdáun mína þá fnussa sumir og tala um að borgin geri ekki nóg.

Allavegana, setti fleiri myndir inn á myndasíðuna.

Þar með hefurðu það Katla?

Birt í Lífið í Montréal | 4 athugasemdir

Listin að beina athyglinni annað

Það eru víst tæpir tveir mánuðir liðnir síðan seinast.

Til að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist set ég hér inn lítið vídeó ykkur til yndis- og ánægjuauka. Eilítil innsýn í blómstrandi menningarlíf Montréal-borgar. Þess má geta að annar listamaðurinn var eilítið hífaður þegar gjörningurinn var framinn. Á milli hluta er látið liggja hvor það var.

Que c’est beau!

Allavegana, áfram með smjörið!

Birt í Menning | 5 athugasemdir

Melissa Soundclash

Tónlist. Hvort það komi einhverjum á óvart er óvíst, en við Katla höfum kíkt á nokkra tónleika hér úti. Ekki marga, kannski einhverja 4-5 allt í allt. Þar sem við erum að reyna að upplifa Könödu sem best hafa tvennir tónleikar með hérlendu fólki orðið fyrir valinu. Langar að deila þeirri reynslu.

Á þriðjudagskvöldi fyrir nokkrum vikum snigluðum við okku inn á lita tónleika-búllu við Stræti Heilags Lárens til að hlusta á unga konu að nafni Melissa Laveaux. Þekkti lítið sem ekkert til hennar fyrir, vissi að hún væri fædd og uppalinn hér í borg, foreldrar frá Haíti, og hafði heyrt eitt lag með henni. Tónleikarnir voru ánægjulegir, hún, bassaleikari og upptökulið frá Ríkisútvarpinu Kanadíska.

Ljúf stund:

Fyrir fjórum árum varð ég mér út um disk með kanadískri hljómsveit sem ég hef hlustað á þónokkuð síðan þá. Komst svo að því að diskurinn hefði verið tekinn upp hér í Montréal. Þessi sveit, Bedouin Soundclash, hélt svo tónleika um daginn, þá fyrstu hér í borg í nokkurn tíma. Þar sem þeir eru orðnir „nafn“ hérna í Könödu var þónokkur eftirvænting í stórum en jafnframt ungum áhorfendaskaranum. Þeir hafa þó eflaust verið sprækari fyrir fjórum árum. Það er ekki alveg að gera sig að láta hljóðmann færa sér nýjan gítar í hverju einasta lagi og láta hann rétta af hattinn manns á milli laga. Geri ráð fyrir að það verði lakkskóa-pússun næst. En allavegana, lögin af þessum disk standa þó alltaf fyrir sínu.

Yndælt lag:

Birt í Menning | Ein athugasemd

Ör-Samtal

Ávallt sprækur

Hér í Kanada er til kaffihúsakeðja að nafni Tim Hortons. Tim Horton var víst góður hokkíleikmaður, sem slíkur þjóðhetja mikil og læti. Kaffihúsin hans selja meðal annars alls konar dýrðlega kleinuhringi hræbillega. Allt voðalega þjóðlegt eitthvað.

Ég legg það ekki í vana minn að rölta inn í þessi kaffihús (verandi keðja), ætli ég hafi ekki gerst svo frægur að gera það um það bil tvisvar. Þetta samtal átti sér þó stað á einu kaffihúsa Tim Hortons:

Gulli (hávaxinn, hárugur): Bonjour (Góðan daginn)

Afgreiðslukona (grannvaxin, stutthærð, sirka fertug): Hello. How may I help you? (Blessaður, get ég aðstoðað?)

G: Je voudrais bien acheter quelques beignes. (Ég vildi gjarnan fjárfesta í nokkrum kleinuhringjum hjá yður)

A: No problem, which one would you like? (Ekki vandamálið, hvað má bjóða þér)

G: Je prendrais bien un Crème Boston, un Glacé à la vanille et un Double chocolat (Gjarnan Boston-krem, Vanillu-gljáðan og Tvöfaldan súkkulaði)

A: Anything else? (Eitthvað fleira sem glepur?)

G: Non merci, c’est tout. (Nei takk, þetta er allt og sumt)

A: That will be $2.5 (Það gera þá 300 krónur)

G: Voilà Madame (Gerðu svo vel)

A: Here’s your change (Og til baka)

G: Merci beaucoup et bonne soirée. (Kærar þakkir og njóttu kvöldsins)

A: Thank you, same to you. (Takk sömuleiðis)

Montréal getur stundum og sumstaðar verið ákaflega tvítyngd borg.

Nokkrir girnilegir kleinuhringir

 

Birt í Lífið í Montréal | 3 athugasemdir

Hrekkjavaka

Lítil saga innan sviga:

Ég og Katla á góðri stundu

(Það vildi þannig til, ótrúlegt en satt, að um helgina var Hrekkjavaka. Þó ekki hafi verið mjög mikil hrekkjavöku-stemming í hverfinu okkar (þar sem Hrekkjavaka rímar ekki vel við Armani) sáum við þó einstaka grasker á tröppum auk þess sem -skreytingar birtust í vel völdum verslunum, börum og bönkum.

Við Katla ákváðum þó að láta okkar ekki eftir liggja og tókum þátt í gamninu.

Baron Samedi með vini sínum Ráðvillta Sjóræningjanum

Tálguð voru tvö saklaus grasker auk þess sem improviseraðir voru tveir búningar, Baron Samedi (fyrir þá sem vilja lesa meira um þennan ljúfa dreng sjá hér) og Ráðvilltur sjóræningi. Fagurfræðin var að sjálfsögðu höfð í fyrirrúmi.

Haldið var í lítið teiti á föstudeginum, tekinn var metro til að komast þangað, og er almennt mat (lestarstarfsmenn meðtaldir) að fólki hafi skotið skelk í bringu vegna viðurvistar minnar. Nóg var allavegana horft.

Fáeinar myndir af handverki okkar auk búninga fyrir ykkur til að dást að hér.

Í öllu falli var þetta ágætis tilbreyting frá amstri hins erfiða daglega lífs okkar Kötlu.)

Látum svigasögu lokið.

Birt í Almennt | 3 athugasemdir

Mont Orford

Skógivaxnar hlíðar við Mont Orford

Það þykir víst móðins á haustin hér í Kanada að gera sér útúrdúr og fara og skoða haustlitina. Þar sem við Katla erum ákaflega móðins skelltum við okkur í litla sveitaferð sunnudaginn seinasta einmitt með það í huga.

Við fórum með einum meðleigjanda og nágranna, sem vill svo heppilega til að á bíl. Ætlunin var að fara einhvert þar sem nóg væri af trjám af hinum ýmsu tegundum og njóta fjölbreytileika náttúrunna, rölta um í ferska loftinu fjarri skarkala borgarinnar og jafnvel klifra upp á eins og einn hól. Eitthvað fór þetta ofan garð og neðan því við enduðum á skíðasvæði þar sem umferðarteppan á bílastæðinu var meiri en á Miklubrautinni klukkan 9 á mánudagsmorgni. Við skíðaskálann var hljómsveit að spila ábreiður af Bítla- og U2-lögum. Þar var einnig stólalyfta í gangi sem flutti fólk upp á fjallstindinn gegn „vægri“ þóknun. Einnig stóðu tveir göngustígar til boða, léttur og „Super“. Þar sem við erum súper þá var valið ekki erfitt.

Gönguleið A og B og "Súper"-fólkið.

Allavegana þá röltum við upp þetta skíðafjall, Mont Orford (850m). Þetta var ánægjuleg dagsstund, ágætis veður og ágætis félagsskapur. Áhugavert var að þar sem skilti voru með nöfnum á mismunandi göngustígum var enga göngustíga að sjá, klikkaði reyndar á því að taka af því myndir.

Hefur verið tekið í gagnið myndasíða nokkur þar sem fleiri myndum úr göngutúr þessum hefur verið holað niður. Sjá hér. Þar er einnig að finna einhverjar fleiri myndir úr íbúðinni okkar, sjá hér. Ætlunin er að skella þarna inn myndum þegar það á við.

Birt í Almennt | 3 athugasemdir